-(..)-

Þessi bloggsíða er mjög líkleg til að hækka greindarvísitölu þína

miðvikudagur, júlí 27, 2005

innipukinn i london

Held uppi á Innipúkann í dag þar sem grámyglan og rigningin eru ekki beinlínis hvetjandi fyrir útiveru. Held semsagt uppá hann með að hangsa inni við og hlusta á tilraunakennda raftónlist live (einkatónleikar) úr hinum enda stofunnar. Sem stundum er gaman og stundum morðhvetjandi.

Annars gekk ferðalagið til London eitthvað svo vel og þrátt fyrir að hafa haft minna en klukkutíma til stefnu á Keflavíkurflugvelli og það að ég þurfti að bíða í ógeðslega langri röð og ekki að borga fyrir yfirvigtina mína, var akkúrat verið að kalla inn í vélina þegar ég fékk farseðlana afhenta. Sem er gott. Sem þýddi líka að ég þurfti bara að labba rösklega beint útí vél, slapp við allar biðraðir og hangs. Og þrátt fyrir að lenda með 20 skátum í sætunum í kringum mig sem töluðu hátt með hrikalegum suður-bandarískum hreim sváfu þeir alla leiðina svo ekki heyrðist múkk frá þeim. Sem er gott. Svo gekk lestin heim án sprengjutilræða og ég þurfti ekki að bíða neitt eftir strætóinum mínum. Frekar óeðlilega lukkulegt.

Í kvöldmat borðaði ég um 200 grömm af glænýjum 10 kílóum af íslenskum þorski sem pabbi sendi mig með og má búast við stórauknum gáfum (þurfti ekki á meira að halda!) eftir að þau kíló hafa verið innbyrt.

Ég á svo góða að sem aumkuna sér reglulega yfir mann og gauka að manni styrkjum í ýmsum formum.
Það er eitthvað svo fyndið að hugsa til þess að ég hafi keypt íbúð þegar ég var átján ára og þá meikaði ég varla að þiggja þúsund kall frá neinum vegna þess að ég var sko fullorðin en aftur á móti núna er ég 25 ára gömul og á EKKERT nema mínusfjármagn og hætt að segja nei takk og verða vandræðaleg ef ma og pa rétta manni 5000 kall.
þetta gerir þroskinn manni...
djók.

og ég er að mygla hérna inni. ætla út í göngutúr
bleee

sunnudagur, júlí 24, 2005

sirkús papa lazarou


Það kom ekkert annað til greina en að heimsækja gamlan uppáhaldsskemmtistað svona síðasta laugardagskvöldið í höfuðborg Íslands.

Eftir að hafa hitað upp heima hjá Ellu fyrr um kvöldið með bjórdrykkju, matargúffi og orðræðu um ástina og lífið drifum við okkur á miðnæturopnun Hildigunnar afmælisbarns sem var haldin á Nýló. Þar hittum við nokkra fyrrverandi skólafélaga sem voru líka í góðu skapi og allir voru sammála um að leiðin lægi á Sirkus.

Ég og Ella reyndum að mæta snemma á staðinn (að íslenskum hætti) eða um 2:30 og þurftum að bíða ekkert svo langri röð. Við fylgdumst með nokkrum gefast upp á biðinni fyrir framan okkur svo enn styttist röðin. Ég var í góðu skapi og einstaklega góðu jafnvægi svo þolinmæðin skein af mér þrátt fyrir hversu hægt þetta gekk nú allt fyrir sig.

Svo kom eitthvað lið sem fannst það "vera eitthvað" og fór að troða sér fremst í röðina þangað til fremsti hlutinn af henni, sem er jafnan kallaður V.I.P.röðin var orðinn fjölmennari en hópurinn sem hafði beðið endalaust lengi.

Þetta fólk sem "voru einhverjir" var bara svona lið sem hefur einu sinni fengið mynd af sér í Grapevine eða Orðlaus og eru kannski "áberandi" á laugarveginum (sem er náttúrulega rosa eftirsóknarvert). Einhver hefur kannski verið kenndur við hljómsveit eða myndlist einhvern tímann á ferlinum sem gerir viðkomandi merkilegri en hina sem bíða í röðinni. Dyravörðurinn þenur brjóstkassann, sýnir hver ræður og hleypir þeim sem eru nógu merkilegir fyrir V.I.P. röðina inn fyrir.

Svo hefur það einhvern tímann spurst út að fræga fólkið tjékki á barnum í leit að einhverju semi-orginal þannig að til viðbótar sækja hann 2 metra há íslensk súpermódel sem gera sig breið inni á staðnum og lifa í voninni að verða uppgötvuð af forríkum hollywoodstjörnum.

Þegar inn er komið sér maður kunnugleg andlit, allir að reyna við alla og flestir búnir að vera með flestum. Það er brjálað greddu-kemistrí í loftinu og það virðist vera algerlega tilviljanakennt hver endar með hverjum.

Ofurdrukknar píur með druslulegar hárgreiðslur dansa eins og flóðhestar á ponsulitla dansgólfinu og allir lagerbjórar á svæðinu sullast upp úr glösum. Hönnunargengið mætir í sínu yfirborðslega glamúrkasti og hjalar einungis við fólk sem hefur líka tekið réttar tískuákvarðanir, haldandi að þeir eigi svæðið.
Einhver ælir í horninu, einhver sniffar kók á klóinu og einhver heldur að það að sýnast vita ýmislegt um Shopenhauer við fyrstu kynni muni virka eins og segull á hitt kynið.

Íslensku smástirnin spegla sig í hvoru öðru og hrósa fyrir geðveikar peysur ásamt því að eiga í áköfum samræðum um sjálfan sig við nálæga einstaklinga.

Og þarna inni var ég, að reyna að beina huganum að öðru en akkúrat því sem var að gerast í kringum mig.
Þrátt fyrir hversu viðbjóðslega úrkynjað og ógeðslegt þetta var allt saman skemmti ég mér nú ágætlega enda óþarfi að sóa tímanum í hatur og pirring..ehe..

laugardagur, júlí 23, 2005

tjú pakka vein

var að koma heim. grátbað konu um að ættleiða mig. hún á nefnilega heitan pott.
hún afþakkaði. ohh...
búið.
góða nótt

fimmtudagur, júlí 21, 2005

æ-pod!

mp3 spilarar eru magnaðar græjur. Ég skal brjóta odd af oflæti mínu og viðurkenna að þeir hafa kosti fram yfir gamla ferðageislaspilarann minn. En þeir eru bara alltof vinsælir! Það hafa fáar uppfinningar verið jafnhvetjandi fyrir fólk til að sánka að sér tónlist eins og þetta ódýra niðurhal og mp3 spilarar bjóða uppá.
Sem hefur augljósa galla að sjálfsögðu.
Hversu oft situr maður í strætó og vill vera einn með sjálfum sér, jafnvel að berjast við bílveiki, þorsta, hlandspreng, tímaþröng, kaffifráhvörf.. þegar kemur ekki einhver asni í jakkafötum með gel (þeir eru líka manneskjur) með fokking i-podinn sinn að spila í botni danstónlist sem ég hélt að einungis væri núorðið spiluð á hommastöðum þar sem neonljósum ásamt velþjálfuðum rasskinnum er sveiflað í takt við músíkina.

Og þetta þarf ég jafnvel að þola í 30 mínútur, orðin sveitt í lófunum með þanda nasavængi að reyna að ákveða hvort ég eigi að standa upp í strætóinum á mjög dramatískan og áberandi hátt og færa mig nokkrum sætum framar til að láta viðkomandi finna að svona á ekki að hegða sér í lokuðum rýmum.

Þetta er nefnilega eiginlega eins og óbeinar reykingar.
Og ekkert annað en hljóðklám, verið að abbast upp á mitt persónulega speis með vondu tónlistarvali annars fólks. Sennilega er ekkert skárra þegar góð tónlist er spiluð því þá fer maður að væla að maður heyri ekki nóg.
Lífið er svo strembið.

Ég mætti í strætó tvo daga í röð á eftir einni svona skelfilegri reynslu með vax-eyrnatappa í eyrunum. Mér fannst fólk stara á mig eins og það væri ég sem væri sturluð eða þá að það fór að velta fyrir sér hvort það væri að missa af "degi heyrnalausra" (og ég að sýna samkennd með eyrnatöppunum).

Ég hef samt fundið lausn og hyggst breyta heiminum.

Ég ætla að leggja fólk í i-pod einelti.
Sem virkar þannig að ég er með spilarann, vel virkilega vonda músík í hann, skoppa í strætó og kem mér fyrir við hliðina á einhverjum sem lítur út fyrir að vera líklegur til að verða einhvern tímann mp3-spilara eigandi og svo bara þykist ég vera kúl og botna græjurnar...þar til viðkomandi flýr.
Þannig er ég hugsanlega búinn að móta framtíðarskoðanir manneskjunnar á þessu málefni og ef ég geri þetta á hverjum einasta degi í og úr vinnu og með áætluðum margföldunaráhrifum mun þetta magnast upp í heavy umræðu og árið 2015 verður sett í lög að nota einungis heyrnatól sem hljóðsmita ekki.

aaaaaaaah, er farin í bælið

mánudagur, júlí 18, 2005

ferðalög og slíkir gerningar

Á mánudagskvöldi eftir góða helgi virðist heilabúið ekki vera komið lag, enn er nokkuð eftir í skýra hugsun og samhæfðar hreyfingar og einbeitingarskortur virðist hrjá mig. Þar er m.a. um að kenna að bróðir æfir sig á gítar í næsta herbergi og í 500metra fjarlægð er einhver naglinn að blasta subwúferinn svo svakalega að ég er farin að halda að ég sé að missa af útitónleikum snoop í ghettói Íslands, efra Breiðholti.

Annars fór ég út á landsbyggðina á föstudaginn í leit að fjöri með nokkrum vinum. Endaði í 4 klst fjarlægð frá höfuðborginni, drekkandi romm og étandi sel, hval, grásleppu og skötustöppu. Ég svaf af mér heila dorgveiðikeppni og missti einhvern veginn af bátsferð, brennu og sveitaballi. Á sama stað voru nefnilega 3 góðir heitir pottar fyrir almenning og opið allan sólarhringinn. Og þar safnaði ég sundfitum.
Ég var sem sagt á Bryggjuhátíð á Drangsnesi til að vera viðstödd opnun listsýningar Ellu vinkonu. Þrátt fyrir rigningarskúra var þetta nú allt alveg ágætt, uh.. þ.e.a.s. hátíðin.. og sýningin líka fín..
Allavega, sundfitin komu svo að góðum notum í dag en ég og systir tókum Fannar litla og annan jafngamlan og skelltum okkur í sund.
Það er ferlega fyndið að passa uppá tvö tveggja ára kríli í sundi og ég þurfti svo mikið að einbeita mér í búningsklefanum að gera börnin klár að það munaði engu að ég gleymdi að ég þyrfti líka sundföt og sturtu.
Búið.

föstudagur, júlí 08, 2005

slæmur dagur til að gleyma bakpokanum sinum

Það kom dagur eftir gærdaginn. Ég mætti of seint í vinnuna í dag vegna þess að þegar nær dró liverpool street lestarstöðinni tók að hægja á umferðinni. Ég náði að hoppa út áður en strætóinn varð kolfastur í traffík en lestarstöðin hafði verið rýmd ásamt því að götunum í kring var lokað vegna grunsamlegs bögguls.. sem ég held að hafi nú ekki verið neitt. Ég var löglega afsökuð fyrir seinkunina.
Þetta lýsir samt ástandinu ágætlega, allir eru á varðbergi, löggur út um allt, ekki sjéns að finna ruslatunnu nálægt lestarstöðvunum (svo ekki sé hægt að fela sprengjur þar), í lestunum eru farþegar stanslaust áminntir að skilja ekki eftir neitt eftir sig ásamt því að láta vita af einhverju grunsamlegu, á skjáunum í strætó þar sem leiðinlegar auglýsingar rúlla venjulega allan daginn er nú búið að skipta yfir í það sem eftirlitsmyndavélarnar taka upp, -allir að fylgjast með öllum. Í vinnunni voru gefin fyrirmæli um að röntgen-skanna hvern einasta hlut sem kom inn í póstherbergið, bara svona til öryggis..

Ég kláraði síðasta vinnudaginn minn á þessum stað í dag. Skrítið að vinna sem "temp" (temporary worker). Maður vinnur hálfan mánuð í hinu og þessu fyrirtæki, þarf að læra milljón nöfn og inn á fólkið sem maður vinnur með ásamt því að læra hvar allt er í þessum stóru byggingum og þá er eftir að læra hvað starfið inniheldur. Og þetta þarf allt að gerast á mettíma svo maður sé nothæfur.
Það er ekki laust við að maður sé svolítið dasaður í heilanum þegar maður kemur heim úr vinnu og ég held ég hafi lært meira um Englendinga á þessum 1 1/2 mánuði sem ég er búin að vera að vinna heldur en allan þann tíma sem ég er búin að búa hérna (síðan október!!).
Svo kveður maður liðið á föstudegi og segir "góða helgi (og gangi þér vel í lífinu) -vitandi að maður á ekki eftir að sjá þau aftur.
Er orðin lúin enda löngu kominn háttatími. Best að hoppa í bælið og safna kröftum fyrir enn eina ferðina á hið horbjóðslega Oxfordhell (aðal-verslunargatan) þar sem keyptur verður morðdýr-óþurftarhlutur fyrir bróður minn (hann borgar).
"yfir"

fimmtudagur, júlí 07, 2005

horror

er i vinnu.. aetladi bara ad lata vita ad eg lenti ekki i sprengingunum, rett missti af theim sem betur fer. er samt stodd i fjarhagshjarta borgarinnar, the city, nalaegt moorgate og liverpool street og vid megum ekki einu sinni yfirgefa bygginguna. samgongur liggja nidri. folk er hvatt ad fara ekki ad heiman og lagmarka simnotkun. thetta er svo faranlega scary og madur er eiginlega med gratstafinn i kverkunum..

miðvikudagur, júlí 06, 2005

meirihattar mannamotahugleidingar

Okey.
Það er kominn tími á að minnast á þjóðhátíðina. Bróðir minntist á hana í blogginu sínu og hvort hann ætti að fara á hana eða kaupa sér gítarmagnara, ég kommentaði og kommentið fékk komment og ég ætlaði að svara því þar en hafði of mikið að segja þannig að hér kemur það sem ég vildi sagt hafa:

!!!ÞJÓÐHÁTÍÐ Í EYJUM 2005!!!

Ég skrifaði:
"Þjóðhátíð? Eftir reynslu mína af síðustu þjóðhátíðum sem ég fór á myndi ég velja magnarann. Dalurinn er kaffærður í ofurdrukknum lýðnum sem er að meirihluta unglingar úr öllum landshornum. Hörmuleg tónlist er spiluð á danspöllunum ásamt að hver einasti gítareigandi glamrar "lífið er yndislegt" og ættingjar manns segja manni sömu söguna 5sinnum á einum klukkutíma. Og þetta er bara toppurinn af ísjakanum.

Eiginlega verður fólk að drekka sig kolsvart til að hafa gaman af þessu. er ég neikvæð?"

-og ein manneskja samsinnti mér og velti fyrir sér hvort það væri sökum aldurs (hún er nýbúin að eiga afmæli, kemur málinu held ég samt ekkert við) sem henni finndist þetta.

og hér kemur langa svarið:

Efast um að þetta hafi eitthvað með aldur að gera heldur bara það að átta sig á hvernig ímyndin, sem er viðhaldið af okkur öllum, er í raun og veru.
Ég hef oft upplifað ólýsanlega gleðitilfinningu á þjóðhátíð sem var blanda af mánaðalangri tilhlökkun míns sjálfs og þúsunda annarra og ásetningi allra um að eiga góðar stundir í góðum félagsskap fjölskyldu og vina. Það er eitthvað svo æðislegt.

En hvernig skemmtanahaldið verður úrkynjað líkar mér ekki. Fegurðin við þessa sætu "sér-þjóðhátíðar" ímynd og lundann og flatkökur með hangikjöti þynnist út með hverju nýja 1000 manna búnti sem bætist við þjóðhátíðargestatöluna.
Amma og afi alltaf eins og útspýtt hundskinn að þjónusta sína 20 húsgesti (ég tilheyri oftast þeim hópi) og fólk að pína sig í þynnkunni að smyrja fleiri rækjusamlokur því gestir og gangandi mega nú ekki koma að tómum kofanum.. -eða tjaldinu.

Krúttlegur rembingur breytist í ekki svo krúttlegan með frekari fjárútlátum, uppsafnaðri þreytu, margradaga þynnku og móral en öllu er skolað niður með vodka í ananassafa (blandað sterkt)(maður pissar svo mikið af bjór) með fylgjandi röfli, gubbi, drullu og tremma.
-Og ekki má gleyma metingunum um endingartíma í dalnum, lítrainnbyrðingu og "hver endaði í tjörninni".

Klóknir krakkar plata pening út úr fyllibyttunum fyrir nammi og hvellhettum, endatjöldin ýmist fjúka eða verða gegnsósa af hlandi, hættan á að stíga á mannaskít eykst með hverjum deginum og alltaf má gera það sér til dundurs leita að notuðum smokkum eða að horfa á ungmennin (eða mið-mennin/gamalmennin) eðla sig í brekkunum.
-Svo margt sem ég fæ mig ekki einu sinni til að skrifa um því viðkvæmar saklausar sálir gætu skaðast af slíkum lesningum. (setningin að ofan rétt sleppur því börn gætu haldið að "eðla sig" sé að breytast í eðlu, leika sér með eðlu eða klæðast eðlubúningi??).

Allavega, mín skoðun er sú að til þess að hægt sé að hafa gaman á þjóðhátíð verði maður að vera tilbúinn að líta algerlega framhjá óbjóðnum sem þar leynist, ef maður getur.
Þannig er það líka í lífinu, hamingjusamasta fólkið er virðist oftast vera það sem líður í gegnum lífið án þess að finnast hryllingurinn í kringum sig koma sér við.

Ég óska þeim sem ætla á þjóðhátíð góða og gleðilega skemmtun, bið að heilsa klósettpappírsleysinu á útúrskitnu kömrunum, dauðu píunni í brekkunni, öllum aðdáendum lagsins "lífið er yndislegt" sem skilja ekki að lagið var samið með aðstoð vísindanna til að örva serotónín magnið í heilanum, brennukónginum Finnboga og síðast en ekki síst flestum þeim sem heimsækja Bobbukot.

sunnudagur, júlí 03, 2005

heimsokn til helvitis


Þar sem gallabuxur og leðurjakki er ekki góður einkennisbúningur í 25-30 stiga hita ákvað ég að skella mér í verslunarleiðangur í gær. Sem er meira en að segja það.

Þegar stefnt er á heimsókn í fatabúðir í miðri höfuðborginni á laugardagseftirmiðdegi er nauðsynlegt að vera vel undirbúinn líkamlega jafnt sem andlega. Maður verður að passa sig á að vera hvorki of svangur né saddur ásamt því að gæta sín á að drekka kaffið sitt og huga að reglulegri vatnsinntöku. Þessu þarf svo að halda í listilegu jafnvægi til að lágmarka klósettferðir en vandasamt er að finna mannsæmandi losunarskápa í 101 london.
Best er að byrja nokkrum dögum fyrir leiðangur að byggja upp gott sjálfsmat og á verslunardegi er mjög mikilvægt að líta vel út svo líkurnar aukast á að maður finni eitthvað sem fer manni.

Þegar að ofangreind skilyrði hafa verið uppfyllt þarf að velja hvort maður sé í skapi fyrir að berjast eins og jarðýta í gegnum mannþvöguna til að komast áfram eða hvort maður eigi að láta sig berast tilviljanakennt með straumnum. Fyrri aðferðin er betri ef maður er í tímaþröng (seinni er betri ef maður vonast eftir plássi í himnaríki).

Þegar í búðirnar er komið þarf maður svo að strunsa framhjá pastellituðum flaksandi flíkum í tonnatali og ódýrum nærbolum sem eyðileggjast við fyrsta þvott. Svo sér maður föt sem eiga að líta út fyrir að vera rosa "unique" með einhverju brjáluðu saumuðu í þau en þá nær sú blekking frekar skammt þar sem það eru 30 nákvæmlega eins flíkur á slánni.

Ef maður er heppinn að hafa séð eitthvað sæmilegt í loftkældri búðinni bíður manns 10metra löng biðröð að ó-loftkældum búningsklefunum. Þetta er kannski taktík til að láta fólk hugsa "æ ég nenn´ekk´a´máta, kaub´etta´bara" sem virkar ekki á mig nema um sé að ræða eitthvað skítódýrt.

Á meðan svelta börn í Afríku, sprengjur springa á stríðshrjáðum svæðum, Bush neitar að taka þátt í Kyoto, síamstvíburar fæðast, kjarnorkuver lekur og mér vantar buxur.

Myndin er af mér og verslunarstjóra Topshop ræða um ástandið í tískuheiminum.