-(..)-

Þessi bloggsíða er mjög líkleg til að hækka greindarvísitölu þína

fimmtudagur, júlí 21, 2005

æ-pod!

mp3 spilarar eru magnaðar græjur. Ég skal brjóta odd af oflæti mínu og viðurkenna að þeir hafa kosti fram yfir gamla ferðageislaspilarann minn. En þeir eru bara alltof vinsælir! Það hafa fáar uppfinningar verið jafnhvetjandi fyrir fólk til að sánka að sér tónlist eins og þetta ódýra niðurhal og mp3 spilarar bjóða uppá.
Sem hefur augljósa galla að sjálfsögðu.
Hversu oft situr maður í strætó og vill vera einn með sjálfum sér, jafnvel að berjast við bílveiki, þorsta, hlandspreng, tímaþröng, kaffifráhvörf.. þegar kemur ekki einhver asni í jakkafötum með gel (þeir eru líka manneskjur) með fokking i-podinn sinn að spila í botni danstónlist sem ég hélt að einungis væri núorðið spiluð á hommastöðum þar sem neonljósum ásamt velþjálfuðum rasskinnum er sveiflað í takt við músíkina.

Og þetta þarf ég jafnvel að þola í 30 mínútur, orðin sveitt í lófunum með þanda nasavængi að reyna að ákveða hvort ég eigi að standa upp í strætóinum á mjög dramatískan og áberandi hátt og færa mig nokkrum sætum framar til að láta viðkomandi finna að svona á ekki að hegða sér í lokuðum rýmum.

Þetta er nefnilega eiginlega eins og óbeinar reykingar.
Og ekkert annað en hljóðklám, verið að abbast upp á mitt persónulega speis með vondu tónlistarvali annars fólks. Sennilega er ekkert skárra þegar góð tónlist er spiluð því þá fer maður að væla að maður heyri ekki nóg.
Lífið er svo strembið.

Ég mætti í strætó tvo daga í röð á eftir einni svona skelfilegri reynslu með vax-eyrnatappa í eyrunum. Mér fannst fólk stara á mig eins og það væri ég sem væri sturluð eða þá að það fór að velta fyrir sér hvort það væri að missa af "degi heyrnalausra" (og ég að sýna samkennd með eyrnatöppunum).

Ég hef samt fundið lausn og hyggst breyta heiminum.

Ég ætla að leggja fólk í i-pod einelti.
Sem virkar þannig að ég er með spilarann, vel virkilega vonda músík í hann, skoppa í strætó og kem mér fyrir við hliðina á einhverjum sem lítur út fyrir að vera líklegur til að verða einhvern tímann mp3-spilara eigandi og svo bara þykist ég vera kúl og botna græjurnar...þar til viðkomandi flýr.
Þannig er ég hugsanlega búinn að móta framtíðarskoðanir manneskjunnar á þessu málefni og ef ég geri þetta á hverjum einasta degi í og úr vinnu og með áætluðum margföldunaráhrifum mun þetta magnast upp í heavy umræðu og árið 2015 verður sett í lög að nota einungis heyrnatól sem hljóðsmita ekki.

aaaaaaaah, er farin í bælið

3 Comments:

At 12:59 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

hæ gella! á ekkert að klessa sér á Vestmannaeyjar???
hvenær ferðu aftur út? er bara verið að reyna að stela mömmu mans með kossum og keleríi?? en gaman að vita af þér óhulltri eftir Dransnesið!!Það hefur nú verið gott að komast aðeins út úr siðmenningunni!! Bæ í bili er að fara heim úr vinnu og gera ritgerð;o(

 
At 10:02 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Þú ert svo mikill kjáni. Á góðan hátt þó.

 
At 10:24 e.h., Blogger -(..)- said...

sorry þetta með mömmu þína..réð ekki við mig. hafði einmitt þá verið að hugsa að ég vildi ekki segja hæ við neinn nema einhvern sem ég þekkti í gamla daga (í alvöru)(var í skrítnu skapi) svo birtist mamma þín á laugarveginum. vin í eyðimörkinni..ahh

en ég held að ég sleppi eyjunum í þetta skiptið. hvort eð er allir svo trekktir þar svona rétt fyrir þjóðhátíð..isn´t it? neh bara tímaskortur hjá mér..oki hringi seinna..túrílúú

 

Skrifa ummæli

<< Home