-(..)-

Þessi bloggsíða er mjög líkleg til að hækka greindarvísitölu þína

miðvikudagur, júlí 06, 2005

meirihattar mannamotahugleidingar

Okey.
Það er kominn tími á að minnast á þjóðhátíðina. Bróðir minntist á hana í blogginu sínu og hvort hann ætti að fara á hana eða kaupa sér gítarmagnara, ég kommentaði og kommentið fékk komment og ég ætlaði að svara því þar en hafði of mikið að segja þannig að hér kemur það sem ég vildi sagt hafa:

!!!ÞJÓÐHÁTÍÐ Í EYJUM 2005!!!

Ég skrifaði:
"Þjóðhátíð? Eftir reynslu mína af síðustu þjóðhátíðum sem ég fór á myndi ég velja magnarann. Dalurinn er kaffærður í ofurdrukknum lýðnum sem er að meirihluta unglingar úr öllum landshornum. Hörmuleg tónlist er spiluð á danspöllunum ásamt að hver einasti gítareigandi glamrar "lífið er yndislegt" og ættingjar manns segja manni sömu söguna 5sinnum á einum klukkutíma. Og þetta er bara toppurinn af ísjakanum.

Eiginlega verður fólk að drekka sig kolsvart til að hafa gaman af þessu. er ég neikvæð?"

-og ein manneskja samsinnti mér og velti fyrir sér hvort það væri sökum aldurs (hún er nýbúin að eiga afmæli, kemur málinu held ég samt ekkert við) sem henni finndist þetta.

og hér kemur langa svarið:

Efast um að þetta hafi eitthvað með aldur að gera heldur bara það að átta sig á hvernig ímyndin, sem er viðhaldið af okkur öllum, er í raun og veru.
Ég hef oft upplifað ólýsanlega gleðitilfinningu á þjóðhátíð sem var blanda af mánaðalangri tilhlökkun míns sjálfs og þúsunda annarra og ásetningi allra um að eiga góðar stundir í góðum félagsskap fjölskyldu og vina. Það er eitthvað svo æðislegt.

En hvernig skemmtanahaldið verður úrkynjað líkar mér ekki. Fegurðin við þessa sætu "sér-þjóðhátíðar" ímynd og lundann og flatkökur með hangikjöti þynnist út með hverju nýja 1000 manna búnti sem bætist við þjóðhátíðargestatöluna.
Amma og afi alltaf eins og útspýtt hundskinn að þjónusta sína 20 húsgesti (ég tilheyri oftast þeim hópi) og fólk að pína sig í þynnkunni að smyrja fleiri rækjusamlokur því gestir og gangandi mega nú ekki koma að tómum kofanum.. -eða tjaldinu.

Krúttlegur rembingur breytist í ekki svo krúttlegan með frekari fjárútlátum, uppsafnaðri þreytu, margradaga þynnku og móral en öllu er skolað niður með vodka í ananassafa (blandað sterkt)(maður pissar svo mikið af bjór) með fylgjandi röfli, gubbi, drullu og tremma.
-Og ekki má gleyma metingunum um endingartíma í dalnum, lítrainnbyrðingu og "hver endaði í tjörninni".

Klóknir krakkar plata pening út úr fyllibyttunum fyrir nammi og hvellhettum, endatjöldin ýmist fjúka eða verða gegnsósa af hlandi, hættan á að stíga á mannaskít eykst með hverjum deginum og alltaf má gera það sér til dundurs leita að notuðum smokkum eða að horfa á ungmennin (eða mið-mennin/gamalmennin) eðla sig í brekkunum.
-Svo margt sem ég fæ mig ekki einu sinni til að skrifa um því viðkvæmar saklausar sálir gætu skaðast af slíkum lesningum. (setningin að ofan rétt sleppur því börn gætu haldið að "eðla sig" sé að breytast í eðlu, leika sér með eðlu eða klæðast eðlubúningi??).

Allavega, mín skoðun er sú að til þess að hægt sé að hafa gaman á þjóðhátíð verði maður að vera tilbúinn að líta algerlega framhjá óbjóðnum sem þar leynist, ef maður getur.
Þannig er það líka í lífinu, hamingjusamasta fólkið er virðist oftast vera það sem líður í gegnum lífið án þess að finnast hryllingurinn í kringum sig koma sér við.

Ég óska þeim sem ætla á þjóðhátíð góða og gleðilega skemmtun, bið að heilsa klósettpappírsleysinu á útúrskitnu kömrunum, dauðu píunni í brekkunni, öllum aðdáendum lagsins "lífið er yndislegt" sem skilja ekki að lagið var samið með aðstoð vísindanna til að örva serotónín magnið í heilanum, brennukónginum Finnboga og síðast en ekki síst flestum þeim sem heimsækja Bobbukot.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home