-(..)-

Þessi bloggsíða er mjög líkleg til að hækka greindarvísitölu þína

mánudagur, júní 27, 2005

hvar er það nu eiginlega?"Svo, í hvaða námi varstu?"
-"myndlist"
"Búin að fylgjast með tennisnum?"
-"ég á ekki sjónvarp"
"HA! Okei...hmm, hver er helsta íþróttin á Íslandi? Fylgistu ekki með íþróttum?"
-"fótbolti sennilega vinsælastur og kannski handbolti. en ég hef ekki gaman af íþróttum."

Þar með dóu samræðurnar.

Þetta var semsagt samtal við mann í vinnunni sem átti að kenna mér inná starfið í dag (vinn vinnu þar sem ég er alltaf að breyta um starfsumhverfi).
Eftir þessa mínútutilraun til að standa í chitt-chatti við fröken indí var ekki lagt í mikið meira en hið allra nauðsynlegasta. -Enda ekki hægt að ræða við mig um neitt sem máli skiptir.
---
og heyrði ég þetta fjórum sinnum:
"so you´re from ICE-land. It must be really cold there..innit?"
---
Svo voru líka þessar samræður:
"you speak with an accent, where are you from?"
-"iceland"
"ireland?"
-"no, iceland"
"ireland? scotland?
-"no no no, iceland, ICE-land!"
"Sorry? What? Where is that?"
!!!

sunnudagur, júní 26, 2005

Pelsatal


Þarf að fara að leifa hollari mat.
Það er nokkuð augljóst að hverfisrefirnir eru ekki á neinu heilsufæði. Rebbinn á myndinni lítur óvenjuvel út miðað þá sem ég hef séð en oftast vantar á þá helminginn af feldinum og rófan yfirleitt hárlaus.
Ég var farin að þekkja þá orðið í sundur en þeim hefur fækkað úr 8 í bara 1 yrður á síðustu mánuðum (yrður er millistig af yrðlingi og refi). Litlu greyin. Svo grafa þeir holur og kúka í garð nágrannans sem hatar þá útaf lífinu. Gamla kellingin í kjallaranum (sem er nýja vinkona mín) kastar stundum til þeirra matarbita nágrannanum til mikillar gremju.
Svo eru líka snæuglur hérna. Þessi var í eldhúsinu okkar um daginn.

föstudagur, júní 24, 2005

sein að fatta

Fyrir nokkrum vikum síðan labbaði Alex framhjá skitnu A4 blaði sem á stóð "KILLING ICELAND" og var auglýsing á fundi sem var haldinn í London. Hann lét mig vita og við urðum öll uppveðruð af staðreyndinni að í heimsborginni London væri skeggrætt um framtíð litla Íslands.
Auðvitað mættum við á fundinn sem hafði í reynd verið einstaklega illa auglýstur.

Þar sátum við prúð og sæt í fámennum hópi grasreykjandi-dreddahippa sem voru auðvitað íklæddir mussum. Við horfðum á hjartnæma vídjómynd um hvernig væri verið að eyðileggja náttúru landsins með stóriðju.
Myndin var heldur á dramatísku nótunum fyrir minn smekk og þrátt fyrir að ég þurfti að andvarpa nokkrum sinnum hátt og pirringslega yfir hversu mikið var verið að reyna að stjórna hver skoðun mín yrði eftir áhorf beið ég þolinmóð eftir að henni lyki.
Ég er löngu búin að gera upp hug minn um þetta mál og þurfti ekki að sjá póstkortamyndir brenna fyrir framan augun á mér.

Eftir myndina hélt Íslendingur ræðu um stöðu málsins og svaraði spurningum hippanna í lokin. Mér fannst spurningar þeirra út í hött en þær snerust um að berjast gegn virkjunum á full-líkamlegan hátt að mínu mati. Eftir ennþá fleiri hávær(ari), pirringsandvörp frá mér drullaði ég loksins spurningu út úr mér.

Ég spurði einfaldlega hvort málið væri virkilega að nokkrir einstaklingar (langaði að segja útlenskir dreddahippar) myndu hella gosi í olíutankana á vinnuvélunum við Kárahnjúka, og hvort ekki ætti frekar að ýta undir enn frekari umræðu og athygli (langaði að segja "virtra") erlendra aðila um málið þar sem Íslendingar eru alltaf svolítið veikir fyrir að spegla sig í öðrum þjóðum.
En þess ber að geta að um þetta hefur verið skrifað í mörgum virtum erlendum fjölmiðlum auk þess sem breskur þingmaður, Sue Doughty, hefur minnst á málefni Íslands á breska þinginu og hvatt þingið til að þrýsta á Ísland til að afstýra frekari stóriðjuáætlunum.

Þar sem ég er frekar þykk, eða réttara sagt, svolítið eftir á, þá fattaði ég það um leið og ég hafði gubbað útúr mér þessari spurningu að ég væri stödd á activista-fundi sem var að skipuleggja mótmælaaðgerðir við Kárahnjúka, og ég beinlínis að segja þeim að mér þætti þetta allt asnalegt (já það var hægt að lesa það á milli línanna hjá mér).

Ég vildi bara ekki að kjánalegir útlendingar sem yrði hlegið að myndu vera þeir sem væru að mótmæla virkjununum, því þetta lið myndi koma hingað, étandi "vegan"fæði, vera með læti og fara svo beint í að bjarga selum á Grænlandi eða mótmæla viðskiptabanni á Kúbu. Þá vil ég heldur trúverðugt lið í mótmælin.

limbönd eftir litum...

Hann er að laga til. Þessi elska. Í herberginu sínu.
Ég hef ekki kynnst öðru eins drasli og hélt ég að ég væri slæm en jeminn.

Allur gólfflöturinn er þakinn dóti sem nær að meðaltali uppí miðja kálfa og rétt er búið að ýta frá nógu miklu dóti til að skóstærð 43 geti tekið 4 skref á tánum (frá hurð að skrifborði).

Síðustu daga hefur hann stormað í átt að herberginu fullur af eldmóði en alltaf gefist upp því hann veit ekki hvar á að byrja.

Og ástæðan fyrir draslinu segir hann vera skortur á geymslueiningum. Svo nú er hann búinn að kaupa 10 samstæða pappakassa með loki og henti gömlu pappakössunum sem voru misstórir (sem er náttúrulega ekki nógu gott), þannig að nú er allt draslið eftir + 10 nýir pappakassar.

Tiltektaraðferð hans er nokkuð sérstök, í staðinn fyrir að ráðast í þetta af krafti, sortera í stórar hrúgur fyrst o.s.frv., þá byrjar hann á því smáa, raða mini-diskunum eftir dagsetningum o.þ.h. sem býður uppá endalaus tækifæri til að gleyma því sem hann ætlaði sér í upphafi. Þannig að, þó hann sé búin að dunda sér í marga klukkutíma við "tiltekt" er ekki hægt að sjá neinn einasta mun.
Ég ætla ekki að hjálpa honum í þetta skiptið, best að sjá hvað hann er duglegur.

Annars er hann ágætur.
Fyrir þá sem ekki vita að þá er ég ekki að tala um barn heldur kærastann minn. Sem skilur ekki íslensku eh he...

fimmtudagur, júní 23, 2005

1 litri af vatni inn, 4 litrar ut

Litli auminginn hennar mömmu sinn var styrktur til heimkomu og er hann væntanlegur 10.júlí. Greyið litla mun stoppa í 16 nætur og hlakkar mikið til að vera í góðum félagskap fjölskyldu og vina og ekki síðast en síst að kæla sig niður í íslensku golunni (byrjar enn ein veffærslan um veðrið).

Núna um miðnætti er nánast óbærilegur hiti og íbúðin okkar hefur breyst úr frystikistu í bakaraofn á örfáum vikum.
Dæmi: Við höfum alltaf skilið smjörið eftir á eldhúsborðinu og í vetur þurfti næstum því að sarga það með rifjárni til að koma því á brauðið en núna dreypir maður því úr könnu.
Ef manni var kalt var æðislegt að opna ísskápinn og ylja sér. Það tók líka þvottinn okkar 2-3 daga að þorna en núna tekur það rétt nokkra klukkutíma. Eiginlega er best að fara í fötin beint úr þvottavélinni, þá er maður allavega svalur í nokkrar mínútur.
Hvernig fara þessir útlendingar að?
Je dúdda.

ps. Gísli, farðu að andskotast til að sækja þennan pakka á pósthúsið, eins gott að ég sendi þér ekki rækjur!

miðvikudagur, júní 22, 2005

Stolt heillar þjoðar a utsölu

Ég var að vafra um á vefnum um daginn þegar ég rakst á 2 mánaða gamla grein á vísi-punkti-is um væntanlegt álver á norðurlandi. Ég hafði ekkert verið að fylgjast með fréttum á Íslandi í lengri tíma og mér brá við að lesa þetta. Mig grunaði nú að þetta væri í vændum en svona snögglega eftir Kárahnjúka átti ég nú ekki von á. Ég skil bara ekki að íslenska þjóðin ætli að láta þetta yfir sig ganga.
Við eigum mikil verðmæti og risastórar erlendar orkufrekar ál-samsteypur bíða eftir að komast að þessu hlaðborði sem Ísland er til að gjörnýta það sem við erum tilbúin að láta fyrir lítið sem ekkert. Hvar er sjálfsvirðingin?

Allavega, þar sem ég er einstaklega snör í snúningum svaraði ég þessari eldgömlu grein með "bréfi til Valgerðar"
Þetta skrifaði ég:

"Hros til Valgerdar

Mig langadi nu ad hrosa idnadarmalaradherra, Valgerdi Sverrisdottur, fyrir vasklegan framgang og framkvaemdagledi vid ad skipuleggja framtid vorrar fosturjardar.
Thad er thaegileg tilhugsun ad vita af thvi ad storar erlendar samsteypur seu ad safnast saman i langa rod til ad nyta ser allt thad besta sem landid hefur upp a ad bjoda.
-Miklar orkuaudlindir sem bida eftir ad verda beisladar (timi er peningar!) og stor, aud landsvaedi sem enginn er hvort ed er ad nota, svo ekki se minnst a oll budarstorfin sem skapast vid ad thjonusta odyrt vinnuaflid sem mun bitast um alversstorfin. -Thad er svo god tilfinning ad vera vinsaell og eftirsottur.
Thad sem er lika svo gott vid orkufreka storidju er thetta nyja landslag sem thad myndar. A nokkurra ara fresti baetist vid glaenytt stoduvatn thar sem adur voru bara dalir. Hverjum finnst ekki stoduvotn flott? Og erum vid ekki buin ad sja Gullfoss einum of oft?

Alver eru nefnilega ekkert svo vond fyrir umhverfid svo framarlega sem madur etur ekki grasid i akvednum radius fra thvi. Og ef vid eigum innistaedu fyrir meiri mengun i Kyoto sattmalanum verdum vid natturulega ad nyta hana til fulls.
Eg oska thvi heppna byggdarlagi sem hlytur alvershnossid til hamingju, fyrirfram, thvi ekki bara thad ad thad gaeti skilad aurum i kassan heldur mundi ibudarverd haekka svo loksins hafi folk efni a ad selja svo thad geti drifid sig i borgina.
Turistar munu lika verda yfir sig hrifnir og alver mun tha vera enn ein rosin i hnappagatid hja Nordlendingum, a eftir hvalaskodun og heimsokn i Kantrybae.
Ja aeska landsins a bjarta framtid,
-og ef theim thykir landid ordid of sundurgrafid og spillt og golfstraumurinn buinn ad beygja fra Islandi vegna grodurhusaahrifanna tha eru natturulega flugfargjold ordin svo odyr."

klassiskt að skrifa um veðrið

Mér finnst eitthvað svo viðeigandi þegar maður hefur svosum ekkert að segja að minnast á veðrið. Það er líka örugglega jafngaman að lesa slíkar veffærslur og að skoða veðurspár vikugamals Mogga.

Það er sumar í Bretlandi og um daginn var svo heitt að ég hélt það myndi kvikna í mér. Það sviðnaði af mér helmingurinn af hárinu og naglalakkið bráðnaði og klíndist út um allt.. og lyktin maður..
En núna er þetta komið í betra horf, rúmlega 20gráður, og ég byrjuð að huga að því að fá húðlit á húðina mína. Með tvöföldu lagi af næst-sterkustu sólarvörninni reyni ég þokast úr mínum náttúrulega fjólubláa lit yfir í rauð-hvítt með freknum.

Og í hitanum hefur maður ekki lyst á að drekka kaffi svo maður berst við fráhvörfin í undarlegum doða.
Eftir að hafa sullað í sig fleiri fleiri bollum af kaffi á dag á loftkælda vinnustaðnum sínum, sér til dægradvalar, þá er kannski ekkert skrítið að maður sé eitthvað dofinn í frítíma sínum.

Annars svona fyrir fólk sem hefur ekki séð mig í nokkra mánuði þá er ég orðin nokkuð breytt. Eftir að ég sætti mig við bragðið af kranavatninu í london hef ég hækkað um a.m.k. 15 sentimetra og mér finnst eins og handleggirnir hafi lengst óvenjumikið í hlutfalli við allt annað. Og ég er komin með platt-fót!
Ég er nú samt sama góða inn við beinið!

þriðjudagur, júní 21, 2005

HUN að blogga?

Þá er að byrja á þessu bloggbulli sem ég ætlaði mér nú aldrei að taka þátt í. Það er nú ýmislegt sem ég var sein að gera miðað við aðra og ætlaði jafnvel aldrei að gera.

-Neitaði t.d. að fá mér GSM síma, hvers vegna ætti ég svo sem að taka þátt í slíkri vitleysu! Það átti að vera einhver bólan..
-Fór ekki til útlanda fyrr en eftir tvítugt
-og ef ég er ekki nógu snögg að átta mig í tískunni (sem gerist oft og iðulega) er betra að vera á eftir öllum (ég kaupi mér kúrekastígvél þegar EINUNGIS Hagkaup er með þau í sölu)

OG að blogga! að viðurkenna þankagang sinn á almannafæri!!
-opinbera fáfræði sína á málefnum líðandi stundar svo ekki sé minnst á lélega málnotkun sem dylst í misgáfulegum málsgreinum.

en... ég hef ákveðið að ég sé kominn með þroska til að líta á þetta með jákvæðari augum. kominn tími til.
fret.

Eins og ég sagði hérna um daginn, þá verður þetta vefsvæði vettvangur ástar og hlýju, gjöf til samfélagsins.
einmitt.

laugardagur, júní 04, 2005

fjandinn

mér tókst það.
mér tókst að velja ljótasta viðmótið.
ég get varla horft á síðuna án þess að fá hroll og vera ekki viss hvort mér finnist þetta fyndið eða óbjóður.

en annars verður þessi síða vettvangur til að dreifa ást og hlýju til umheimsins, svona tilraun til að borga samfélaginu til baka því sem var spreðað í menntun mína.
þ.e.a.s. ef ég missi ekki áhugann á þessu fljótlega.

orð dagsins

sumir
eldspýta
gunnar
gluggi