-(..)-

Þessi bloggsíða er mjög líkleg til að hækka greindarvísitölu þína

föstudagur, júní 24, 2005

sein að fatta

Fyrir nokkrum vikum síðan labbaði Alex framhjá skitnu A4 blaði sem á stóð "KILLING ICELAND" og var auglýsing á fundi sem var haldinn í London. Hann lét mig vita og við urðum öll uppveðruð af staðreyndinni að í heimsborginni London væri skeggrætt um framtíð litla Íslands.
Auðvitað mættum við á fundinn sem hafði í reynd verið einstaklega illa auglýstur.

Þar sátum við prúð og sæt í fámennum hópi grasreykjandi-dreddahippa sem voru auðvitað íklæddir mussum. Við horfðum á hjartnæma vídjómynd um hvernig væri verið að eyðileggja náttúru landsins með stóriðju.
Myndin var heldur á dramatísku nótunum fyrir minn smekk og þrátt fyrir að ég þurfti að andvarpa nokkrum sinnum hátt og pirringslega yfir hversu mikið var verið að reyna að stjórna hver skoðun mín yrði eftir áhorf beið ég þolinmóð eftir að henni lyki.
Ég er löngu búin að gera upp hug minn um þetta mál og þurfti ekki að sjá póstkortamyndir brenna fyrir framan augun á mér.

Eftir myndina hélt Íslendingur ræðu um stöðu málsins og svaraði spurningum hippanna í lokin. Mér fannst spurningar þeirra út í hött en þær snerust um að berjast gegn virkjunum á full-líkamlegan hátt að mínu mati. Eftir ennþá fleiri hávær(ari), pirringsandvörp frá mér drullaði ég loksins spurningu út úr mér.

Ég spurði einfaldlega hvort málið væri virkilega að nokkrir einstaklingar (langaði að segja útlenskir dreddahippar) myndu hella gosi í olíutankana á vinnuvélunum við Kárahnjúka, og hvort ekki ætti frekar að ýta undir enn frekari umræðu og athygli (langaði að segja "virtra") erlendra aðila um málið þar sem Íslendingar eru alltaf svolítið veikir fyrir að spegla sig í öðrum þjóðum.
En þess ber að geta að um þetta hefur verið skrifað í mörgum virtum erlendum fjölmiðlum auk þess sem breskur þingmaður, Sue Doughty, hefur minnst á málefni Íslands á breska þinginu og hvatt þingið til að þrýsta á Ísland til að afstýra frekari stóriðjuáætlunum.

Þar sem ég er frekar þykk, eða réttara sagt, svolítið eftir á, þá fattaði ég það um leið og ég hafði gubbað útúr mér þessari spurningu að ég væri stödd á activista-fundi sem var að skipuleggja mótmælaaðgerðir við Kárahnjúka, og ég beinlínis að segja þeim að mér þætti þetta allt asnalegt (já það var hægt að lesa það á milli línanna hjá mér).

Ég vildi bara ekki að kjánalegir útlendingar sem yrði hlegið að myndu vera þeir sem væru að mótmæla virkjununum, því þetta lið myndi koma hingað, étandi "vegan"fæði, vera með læti og fara svo beint í að bjarga selum á Grænlandi eða mótmæla viðskiptabanni á Kúbu. Þá vil ég heldur trúverðugt lið í mótmælin.

1 Comments:

At 7:58 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

svona til að kommenta á öll þín orð indíana.... mér finnst þú ættir að fara á þing.. ha erekki kominn tími á það.....

en gott blogg.. ég skemmti mér vel við lesturinn... ekki það að blogg þurfi að vera skemmtileg en ekki verra..

og já... þú ert soldið sein að fatta.... svona alveg eins og ég ;)

 

Skrifa ummæli

<< Home