-(..)-

Þessi bloggsíða er mjög líkleg til að hækka greindarvísitölu þína

sunnudagur, desember 09, 2007

hlaupandi hrúgald


Þessi fjandans ritgerð var búin að heltaka mig í mánuði og ég átti að skila henni fyrir kl. 17 síðasta föstudag. Klukkan 16:15 þann dag lullaðist síðasta blaðsíðan út úr prentaranum heima (í austur London) og þá þurfti ég að hlaupa og ná í leigubíl til að skutla mér (á háannatíma) á lestarstöð þar sem biðu mín 2 lestar til að koma mér á áfangastað. Aldrei þessu vant var engin seinkun á þeim og ég og alex hlupum alla leiðarbúta sem við gátum, tilbúin að hrinda frá gömlu fólki og óléttum konum. Ég er búin að eyða svo miklum tíma inni við að ég er orðin að vesaling (orðin óvön hreyfingu), var nánast ósofin, illilega flökurt af stressi og það munaði engu að ég myndi hrynja niður á leiðinni til þess eins að láta sópa mig upp með ruslinu. Með hlaupasting, hjartasting og liggur við æluna í kokinu hleyp ég inn í andyrið á skólanum; á SLAGINU FIMM, en skrifstofan var með dregið fyrir og skilti sem á stóð: CLOSED.
Ég ber hurðina í örvæntingu og hugsa um hvernig í fjandanum ég reddi mér úr þessu og þá kemur konan að innan og segir "Hva, það var ólæst!".
Ég bablaði eitthvað óskiljanlegt, rétti fram ritgerðina, kvittaði fyrir og fór í stúdíóið mitt til að ná andanum og hætta að titra.
Semsagt, ritgerðin komst í hús.
En díses, hvenær lærir maður að vera tímalega í hlutunum?
Ég held ég þurfi að dáleiða eða særa þessi ómyndugu, óskipulögðu vinnubrögð úr mér, einhverjar ábendingar?

Annars er annað dead-line framundan á fimmtudaginn sem var í bið vegna ritgerðarinnar og eftir það mun stressið snúast um að pæla í jólunum á ljóshraða og brottförinni til Íslands. Lendi á Íslandi á miðnætti mánudagsins 17.des.
Ps. er orðin að baugóttu, gráhærðu hrúgaldi.
Veriði góð við mig, gefið mér ávaxtasjeika og taliði hægt.

þriðjudagur, nóvember 20, 2007

Hausinn á mér er fastur í ritgerð. Ég næ honum ekki út.Hausinn verður í tómu rugli næstu daga en mun vonandi losna smám saman þegar að viðfangsefnið fer að skýrast. Þetta stafar af of stóru umfjöllunarefni sem þarf að komast fyrir á of fáum blaðsíðum, þar sem rannsóknir hafa teygst í hið óendanlega.

Þarf að klippa duglega svo hausinn losni.
-Ást.ps. sjálf er ég skolhærð með tagl, skrúbba mig með mosa og lýsi, endurvinn úrgang og nærist á sálarlausu sálarfæði. Geng kappklædd á sumrin og fáklædd á veturna, herði mig með lestri á Séð og Heyrt og DV og mýki mig með kex-áti.

mánudagur, nóvember 05, 2007

Frestunar-áráttan gamalkunna

Ég á að vera að vinna í lokaritgerðinni minni. Sem þarf að vera tilbúin eftir mánuð.
En þá þarf ég allt í einu að vinna að öllu öðru í einu, eins og t.d. að plana nýtt verk, smíða heimasíðu, taka heimilið í gegn, fara á söfn og sýningar, fyrirlestra og uppákomur.

Ég meira að segja taldi sjálfri mér trú um að ég gæti ekki byrjað að læra af krafti fyrr en ég fengi skrifborð (þrátt fyrir að mér finnst fínt að lesa uppí rúmi). Þannig að ég dreif í að smíða mér skrifborð svo ég gæti nú farið að læra. Það stóð svo ónotað í stúdíóinu mínu heima í tæpar tvær vikur, eða þar til í dag.

Þetta er þema hjá mér á þessu bloggi; að minnast á eigin leti og frestunaráráttu. "Litlu" systkini mín eiga þetta til líka, við erum svo skondin með þetta. Ætli þetta genatískt eða uppeldistengt?

Annars er frábært að vera aftur komin í skólann, ég var mjög heppin í stúdíóúthlutuninni og deili frekar stóru rými með tveimur góðum vinum mínum. Ég fékk mjög gott feed-back á verkið mitt sem ég sýndi á Interim sýningu skólans sem er sýning allra 2.árs nema í byrjun skólarárs.

Ég verð að drífa í heimasíðunni minni svo ég geti sýnt ykkur hvað ég hef verið að gera. Ég er að læra á Dreamweaver sjálf eftir þörfum sem gengur frekar hægt þar sem hæfni mín og það sem ég vill áorka er í litlu samræmi.

nenni ekki að skrifa meira en læt hins vegar fylgja með nokkrar myndir frá álversárunum:

föstudagur, október 05, 2007

jú og svo átti hann elsku pabbi afmæli síðastliðinn sunnudag. til hamingju með daginn pabbi minn!

Nokkrar myndir fra Portugal

Þremur dögum eftir að hafa komið frá Íslandi fórum við Alex til Portúgal í 10 daga. Einn af bestu vinum mínum í skólanum, Goncalo, er frá Lissabon og við gistum hjá fjölskyldu hans þar (reyndar hjá tengdamömmu hans). Tveir bekkjabræður mínir komu líka með. Við keyrðum suður til lítils sjávarþorps þar sem pabbi Goncalo á sumarhús. Þar eyddum við 5 dögum og prófuðum nýjar strendur daglega. Syntum í sjónum, tíndum kræklinga og þess háttar skelfisk, fórum í gönguferðir, átum, drukkum og skemmtum okkur. Ótrúlega vel heppnuð ferð!

Allur hópurinn saman að skýla sér undan rigningu.

Ég, Catarina, Goncalo og Kianoosh. Í bakgrunni er aðalströndin í þorpinu sem við gistum í.Veðrið breyttist oft seinnipart dags og þá komu stundum skúrir. Það var samt eitthvað svo magnað að vera á ströndinni í rigningu og roki!Við átum kræklingana og grilluðum fisk, sumir breyttust í drauga.

Þessi fiskur er með framtennur eins og grasbítur.

Alex og Kianoosh skála í kirsuberjalíkjör í sólsetrinu.

Við með Pabba Catarinu sem fór með okkur í útsýnistúr í fallegt þorp sem við sáum danssýningu hjá systur hennar.

Týpísk túristamynd! Það eru svo brattar brekkur í Lissabon að sums staðar þarf að hafa sporvagna sem ferja liðið upp og niður!

þriðjudagur, september 18, 2007

Ókei, Ísland:ÞAÐ VAR FRÁBÆRT Á ÍSLANDI!!! Ótrúlega gaman að koma í heimsókn.
Eyddi smá quality time með fjölskyldunni fyrstu dagana og fór uppí sumarbústað með mömmu og Fannari í tvo daga, flaug svo frá Bakka í helgarferð til Eyja og gisti hjá ömmu og afa á Faxó. Hitti þar marga skemmtilega fjölskyldumeðlimi og góða vini.
Amma og afi alltaf jafn ótrúlega hress og skemmtileg heim að sækja, þau taka alltaf svo vel á móti manni. Ég var líka heppin og lenti í rosalegri KÖKUveislu hjá Sæþóri frænda (ég fór sennilega fjórar umferðir en mig hafði dreymt um slíka veislu í hálft ár!), og matarboðum þar sem allrahanda stórsteikur og ljúffengt fiskmeti var á borðum. Ég kíkti líka í heimsókn til fyrirtækja móðurbræðranna og fór í hjólreiðatúra á lánuðu hjóli.

Alda vinkona hélt partý í nýju einkaíbúðinni sinni sem er heppilega staðsett í miðbænum. Hulda, hluti af hinu heilaga fjórgengi unglingsáranna mætti og Addi kom með Herjólfi til að vera viðstaddur í fimmtugsafmæli sem var haldið í næsta húsi og trítlaði reglulega á milli. Helgi kom með nostalgíu dvd disk sem var samansafn mynda frá unglingsárunum í eyjum og gaf mér kópíu. Við settum svo á hryllilegustu geisladiskana úr safni Öldu sem voru m.a. "Grimm sjúkheit" og "Algjöst möst". Úr partýinu fórum við á Lundann sem breytist ekkert, alltaf nokkurn veginn sömu andlitin. Það var samt rosa gaman.

Hitti svo slatta af liði í Reykjavík, fór á rosalega skemmtilegt djamm með Ólöfu, Ellu og Þóru eftir opnunina hjá Gjörningaklúbbnum sem endaði á Sirkús sem er orðinn hálfgerður túristabar, en ef maður fer þangað um eða fyrir miðnætti er maður mjög líklega eini Íslendingurinn á staðnum. Það skánaði samt eftir því sem á leið og endaði í rugl-fjöri.
Kvöldið eftir bauð Þóra Höfðingi í grillaðan túnfisk og norðurljós í heitum potti en eftir át, mojito drykkju og pottlegu var líkamlega ómögulegt að halda frekar út á lífið.
Daginn eftir kíktum ég og uppáhaldsmanneskjan mín, hann Fannar, á heitustu staðina í borginni; Húsdýragarðinn og Nýlistasafnið. Hann fílaði Nýló í tætlur og ég fílaði húsdýrin.
Svo fór ég heim með aukaferðatösku af fiskmeti.

Mörgum sinnum í þessari ferð fann ég fyrir þessari skrítnu alsælu tilfinningu, svona þegar hamingjan yfir augnabliks aðstæðunum getur ekki orðið meiri, þar sem mér finnst bara svo gaman að ég hoppa af gleðispenningi. Hljómar kannski ferlega væmið en so what? Ég er nefnilega komin með sítt hár, ég má vera eins væmin og mér sýnist.

þriðjudagur, ágúst 21, 2007

jibbbbýýýýýýýýý!!!!!

Hei, er á Íslandi, kom á miðnætti á sunnudeginum (já ég missti af menningarnótt fyrir algeran aulaskap) og fer aftur til London 3.september.
Það er aufga gaman að vera komin!
Hafið samband ef þið hafið hugmyndir að hittingi.
later.

föstudagur, ágúst 03, 2007

Þvílíkir tímar.
Ég bý ein (allavega til 12.ágúst) og hlutirnir gerast á mínum hraða, sem er nokkurn veginn svona í hreyfingum per sólarhring:
dagur 1: 2095
dagur 2: 2320
dagur 3: 1833
dagur 4: 1895
dagur 5: 2153
dagur 6: 10.447.523
dagur 7: 1910

Ég er t.d. núna að byggja upp spennu fyrir heimilisþrifum, peppa mig upp og reyna að hræða sjálfa mig með því að ég gæti fengið gesti hvað og hverju og þar með verði ég að fara að taka til. Af hverju ætti ég að eyða tíma í að laga til þegar ég gæti verið að læra eða vinna? (af hverju ætti ég að vera að blogga þegar ég gæti verið að laga til?)

Ég er aftur komin í 40 tíma vinnuviku. Og það á skrifstofutíma! Sem þýðir;
-fara snemma að sofa (fer vonsvikin í háttinn u.þ.b. tólf til eitt (vonsvikin yfir að geta helst ekki vakað lengur))
-Eyða öllum deginum í að vera kurteis við allajafna frekar óviðkunnalegt fólk oftast að framkvæma frekar boring hluti. (Ekki algilt þó)
-Heim, þreytt, elda og sinna nauðsynlegustu húsverkunum.
-svo lokast hringurinn og ég þarf að stefna í háttinn.

Svo um helgar stressast ég upp af því ég ætti að vera að gera "eitthvað æðislegt við allan þennan frítíma" og ef ég myndi skipuleggja helgina í ræmur hvar fynndi ég þá tímann til "að vera" sem er eiginlega uppáhaldstíminn minn.
Tíminn þar sem ég geri mest lítið, dóla mér nánast hugsunarlaust við ómerkilegar athafnir. Sötra kaffið á 40mínútum, sit kyrr við matarborðið í 5 mínútur eftir kvöldmat (ef ég er ein) og svo framvegis.
Þetta er ekki frumlegt kvart því milljónir manna glíma við sama vandamál.

Fyrir fólk sem er ánægt í starfi er þetta kannski ekkert rosalegt en fyrir allan þann fjölda sem nýtur ekki vinnunnar sinnar er hrikalegt að hugsa til þess hversu miklum tíma af lífi sínu fólk eyðir á stöðum þar sem það vill ekki vera.
Eins og t.d. gaurarnir (22-30ára) sem ég var að vinna með þessa vikuna, síkvartandi undan vinnunni og eyða hverju aukapenný í dvd diska, mp3 spilara, gemsa, playstation, heimabíó, plasmaskjái og þess háttar. Þeir nota vinnutímann í að sörfa e-bay og amazon og nota hádegishléin til að skreppa í búðir.
Ef þeir myndu hætta að eyða í rugl gætu þeir kannski safnað fyrir skólagöngu eða öðru til að koma sér á staði sem henta áhugasviði þeirra. En þeir myndu ekki meika það að vera án kaupmáttarins í nokkur ár.

Þeir eru samt ekki jafnmikil vélmenni og t.d. lögfræðingarnir sem þeir vinna fyrir. Þegar ég horfi á lögfræðingana sé ég ekkert við þá sem staðfestir að þeir séu af holdi og blóði, þeir eru efnislegar einingar af Egóum sem hnussi sínu og látalátum græta einkaritarana sína sem eru orðnar taugahrúgur og hefna sín á þeim sem neðar eru í goggunarröðinni í fyrirtækinu.
Í alvörunni, ég hef aldrei séð jafnmikið af óaðlaðandi fólki á skömmum tíma, ekki útlistlega séð, heldur gjörsamlega laust við allan sjarma -nei verra, beinlínis fráhrindandi í framkomu.
Ég vona að þetta lið sé skárra heima hjá sér.

Annars er ég frábær.

Og hún Rakel Stefý systir mín sem á afmæli 03.ágúst!!!

og hei, það verður kveikt í brennunni á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum eftir nokkrar mínútur og ég sit ein heima -ódrukkin, og röfla á einhverju bloggi! JÉSÚS MINN!!!

Best ég endi þetta á klósettpappírsfatahönnunarkeppnismyndum:


föstudagur, júlí 20, 2007

-/-Krítarferðalagið var frábærlega vel heppnað. Þessar tvær vikur í hitanum umbreyttu mér í jákvæðari og afslappaðri einstakling ásamt því að bakverkurinn sem ég hafði haft í tvær vikur fyrir brottför hvarf.

Við hópurinn gistum í húsnæði í eigu Listaháskólans í Aþenu sem í voru margar litlar íbúðir, stórt eldhús, stór sýningarsalur, nóg af úti-svæði og umlukið skógi með útsýni yfir hafið.
Hópurinn borðaði saman morgunmat (venjulega um hádegisbil) og svo aftur kvöldmat (oftast í kringum miðnætti) og allir unnu að eigin rannsóknum/hugðarefnum fyrir utan það. Gestalistamönnum og fræðimönnum var boðið í heimsókn til að halda fyrirlestra og fundi. Jú og svo fórum við náttúrulega oft á ströndina og í nokkur ferðalög að sjá sögulegar minjar og fallega bæi.
Sjálf vann ég að vídjói sem ég tók svo upp á ströndinni, tókst ágætlega, var frekar fyndið á margan hátt.
Það var svo vel að öllu staðið í þessari vinnustofudvöl, vel skipulagt og góð blanda af umræðum, samvinnu, eigin vinnu og leik. Eiginlega langaði mig varla að fara heim strax.
.
Alex fór í gærnótt til Serbíu í vinnustofudvöl og verður í burtu í heilar 3 vikur. Og ég er að reyna að festast ekki of mikið á internetinu svo ég geti byrjað að pæla í þessari ritgerð sem ég þarf að skila í haust.

En fólk, ég var ömurlega löt að taka myndir og svo keypti ég 6 póstkort + frímerki en sendi ekki eitt einasta, sorrý til þeirra sem töldu sig eiga póstkort skilið!


þriðjudagur, júní 26, 2007

Ég Ég Ég

Kæru fylgjendur,
veriði hjartanlega margblessuð og sæl.

Ég mun nú hægt og rólega taka upp bloggþráðinn eins og ekkert hafi í skorist (engin loforð þó). Hér um bil árs pása gerð að engu.
Það gengur ekki að blogga aftur í tímann enda hálf hjákátlegt að reyna halda söguatriðum í nákvæmri tímaröð fyrir mis spennta lesendur.

Ég á ennþá heima í London, ég er ennþá í skólanum. Ég elska að vera nemandi. Ég á sama kærastann, sama meðleigjandann, sömu vinina+nokkra nýja, ég er núna í sömu glötuðu sumarvinnunni, nota sama bakpokann og keyri sama gamla hjólið.
Semsagt, flest við það sama, nema einhvern veginn miklu betra.

Ég tók þátt í myndlistarsýningu um daginn með nokkrum vinum sem var nokkuð góð og næstkomandi föstudag flýg ég út til Krítar í stutta vinnustofudvöl sem mun enda með sýningu.

Ég hlakka mikið til ferðalagsins og tel niður mínúturnar þar til ég get gefið vinnustaðnum huglægt fokkjú-merki að kveðjugjöf.
Ég verð samt að viðurkenna að ég hef eytt örlítið meiri tíma i að hafa áhyggjur af því að þurfa að bera á mér glærhvíta leggina heldur en hvað ég ætla að sýna á sýningunni.

Ég sakna fjölskyldunnar óheyrilega mikið enda bráðum 7 mánuðir síðan ég sá þau síðast, það er langur tími fyrir unga konu.

ps. fyrir nokkrum vikum hélt ég á þessari litlu könguló:

laugardagur, september 30, 2006

ÞESSI MANNESKJA A STORAFMÆLI I DAG
Elsku pabbi, innilega til hamingju með stórafmælið. Ég vildi að ég væri þarna hjá þér núna að fagna og gefa þér köku en þetta forkunnafagra heimagerða rafræna kort verður að duga í bili. Vona að gjöfin frá okkur systkinunum muni nýtast vel, ástar og saknaðarkveðjur. Indíana

föstudagur, ágúst 25, 2006

er þotin til frakklands. veriði sæl, þið eruð ágæt.

miðvikudagur, ágúst 23, 2006

að laga til eða blogga..

eini sjénsinn til að halda áfram þessari vesalings bloggsíðu (sem hefur verið í dauðateygjunum með tilheyrandi hryglum síðustu mánuði..) er að setja sjálfri mér úrslitakosti.
BLOGGA EÐA... laga til/vaska upp/setja í þvottavél/fara að versla nauðsynjavörur, o.s.frv.
sem þýðir sennilega það að ef ég mun blogga með reglulegu millibili þá er ég líkast til skítug og svöng.

en málið er, án þess að maður sé að reyna að afsaka sig, það að of mikið er búið að vera gerast síðustu mánuði að maður veit ekki hvar maður á að byrja. á maður að uppfæra dagbókarfærslur mánuði aftur í tímann eða á maður að sleppa gamla stöffinu og skrifa frá núdeginum.

ég geri mér grein fyrir að ég nota orðið "maður" óþarflega oft.

ég ætlaði að sýna ykkur nokkrar myndir og þar með afgreiða fortíðina en þegar ég reyndi að uppfæra þær gafst vefskoðarinn alltaf upp. kannski næst, ok.

þetta er orðið ágætt. ég þarf að fara og hjálpa til með kvöldmatinn.

fimmtudagur, júní 01, 2006

Er blogg í lífinu?

Þetta tjáningarform er alveg að fara út í þúfur. Að skolast frá. Að koma í hundana. Að breytast í engu. Nix og núll bara. Mér líður bara eins og ég sé að vélrita bull í notendavænu html umhverfi.
Bull?
Sennilega er þetta allt að koma að. allavega líður mér steini léttara við þessa litlu tjáningu. Það er eins og þungu fargi hafi verið á mér lyft við þessa opinberun. Kannski er líf í blogginu eða blogg í lífinu. Við sjáum til.

Hér eru allavega nokkrar myndir frá síðustu helgi þegar ég heimsótti teindó í sveitið. Frábær helgi! Svo laufglatt og fallegt landslag og allt svo sætt eitthvað!

Ég er einnig að brjóta blað í sögu þessarar síðu en í fyrsta skipti má sjá framan í einhvurn á ljósmyndunum. Ég er orðin eitthvað svo persónuleg. Samt er ég bara ein hérna heima að pikka á lyklaborðið. Ég og tölvan. Báðar gráar en samt svo persónulegar og manneskjulegar.
Þetta er orðið ágætt. Verð að hætta á toppnum. Bless.

fimmtudagur, maí 18, 2006

Skipun frá yfirvaldi

Í dag skulu allir lesa Morgunblaðið, nánar tiltekið blaðsíðu 57. Þar er skrifað um sýninguna mína.
Annars er þetta nú síðasta sýningarhelgi og þeir sem ætluðu að mæta ættu nú að drííífa sig. opin fim.og fös. 4-6 og lau.og sun. 2-5.