MIÐVIKUDAGUR
Ahhh, ég er byrjuð aftur í vinnu eftir góða Íslandsdvöl.
Yndislega vinna. Þegar ég mætti í þangað í morgun fann ég drunga og leiða hellast yfir mig og gat ekki með nokkru móti leynt líðaninni í þau skipti sem ég var spurð á þennan sér breska yfirborðslega hátt "how are you" eða "you alright" þar sem venjan er að bíða EKKI eftir svari. Ég svaraði nú bara með semingi "nah, æm olræt" og starði í gólfdúkinn, yppti öxlum, myndaði spékopp bara öðru megin og reyndi að vera krútt.
Svo gerðist eitthvað eftir hádegi.
-Einn keyrði burðartrillu aftan á hásin sína og fékk meiddi.
-Annar fékk hausverkjakast og hélt hann væri lasinn.
-Náunginn á símanum sem á að vera svo kurteis og hress í viðmóti hafði áhyggjur af lasna barninu sínu sem var í rannsókn vegna hugsanlegrar heilahimnubólgu.
-Enn annar mætti haltrandi af margra daga magasting með andlitið grett í stíl, þungur á brún.
-Einhverjir fengu á baukinn fyrir leti og fóru í hljóða fýlu sem þó fór ekki framhjá neinum
-Nokkrir voru reiðir vegna ósanngirni þar sem þeir töldu sig gjalda fyrir leti annarra..
Vinnuálagið var óvenjumikið og mannskapurinn ekki í ástandi til að sinna því.
Já og síðast en ekki síst; stór hilla féll á skrifborð og slasaði næstum því tvo starfsmenn.
Þegar ég horfði yfir hópinn gat ég ekki annað en hugsað "miserable bunch". Greyin.
Er ég sá að þau voru komin á sama ömurleikaplan og ég, ef ekki neðar, fannst mér enginn ástæða til að vera súr lengur. Ég meira segja djókaði upphátt.
Gat það verið að mér leið betur með sjálfa mig þegar þau þjáðust? oj, hvurs lags manneskja er ég eiginlega? oj mér.