-(..)-

Þessi bloggsíða er mjög líkleg til að hækka greindarvísitölu þína

þriðjudagur, september 18, 2007

Ókei, Ísland:ÞAÐ VAR FRÁBÆRT Á ÍSLANDI!!! Ótrúlega gaman að koma í heimsókn.
Eyddi smá quality time með fjölskyldunni fyrstu dagana og fór uppí sumarbústað með mömmu og Fannari í tvo daga, flaug svo frá Bakka í helgarferð til Eyja og gisti hjá ömmu og afa á Faxó. Hitti þar marga skemmtilega fjölskyldumeðlimi og góða vini.
Amma og afi alltaf jafn ótrúlega hress og skemmtileg heim að sækja, þau taka alltaf svo vel á móti manni. Ég var líka heppin og lenti í rosalegri KÖKUveislu hjá Sæþóri frænda (ég fór sennilega fjórar umferðir en mig hafði dreymt um slíka veislu í hálft ár!), og matarboðum þar sem allrahanda stórsteikur og ljúffengt fiskmeti var á borðum. Ég kíkti líka í heimsókn til fyrirtækja móðurbræðranna og fór í hjólreiðatúra á lánuðu hjóli.

Alda vinkona hélt partý í nýju einkaíbúðinni sinni sem er heppilega staðsett í miðbænum. Hulda, hluti af hinu heilaga fjórgengi unglingsáranna mætti og Addi kom með Herjólfi til að vera viðstaddur í fimmtugsafmæli sem var haldið í næsta húsi og trítlaði reglulega á milli. Helgi kom með nostalgíu dvd disk sem var samansafn mynda frá unglingsárunum í eyjum og gaf mér kópíu. Við settum svo á hryllilegustu geisladiskana úr safni Öldu sem voru m.a. "Grimm sjúkheit" og "Algjöst möst". Úr partýinu fórum við á Lundann sem breytist ekkert, alltaf nokkurn veginn sömu andlitin. Það var samt rosa gaman.

Hitti svo slatta af liði í Reykjavík, fór á rosalega skemmtilegt djamm með Ólöfu, Ellu og Þóru eftir opnunina hjá Gjörningaklúbbnum sem endaði á Sirkús sem er orðinn hálfgerður túristabar, en ef maður fer þangað um eða fyrir miðnætti er maður mjög líklega eini Íslendingurinn á staðnum. Það skánaði samt eftir því sem á leið og endaði í rugl-fjöri.
Kvöldið eftir bauð Þóra Höfðingi í grillaðan túnfisk og norðurljós í heitum potti en eftir át, mojito drykkju og pottlegu var líkamlega ómögulegt að halda frekar út á lífið.
Daginn eftir kíktum ég og uppáhaldsmanneskjan mín, hann Fannar, á heitustu staðina í borginni; Húsdýragarðinn og Nýlistasafnið. Hann fílaði Nýló í tætlur og ég fílaði húsdýrin.
Svo fór ég heim með aukaferðatösku af fiskmeti.

Mörgum sinnum í þessari ferð fann ég fyrir þessari skrítnu alsælu tilfinningu, svona þegar hamingjan yfir augnabliks aðstæðunum getur ekki orðið meiri, þar sem mér finnst bara svo gaman að ég hoppa af gleðispenningi. Hljómar kannski ferlega væmið en so what? Ég er nefnilega komin með sítt hár, ég má vera eins væmin og mér sýnist.