-(..)-

Þessi bloggsíða er mjög líkleg til að hækka greindarvísitölu þína

miðvikudagur, janúar 18, 2006

MIÐVIKUDAGUR

Ahhh, ég er byrjuð aftur í vinnu eftir góða Íslandsdvöl.

Yndislega vinna. Þegar ég mætti í þangað í morgun fann ég drunga og leiða hellast yfir mig og gat ekki með nokkru móti leynt líðaninni í þau skipti sem ég var spurð á þennan sér breska yfirborðslega hátt "how are you" eða "you alright" þar sem venjan er að bíða EKKI eftir svari. Ég svaraði nú bara með semingi "nah, æm olræt" og starði í gólfdúkinn, yppti öxlum, myndaði spékopp bara öðru megin og reyndi að vera krútt.

Svo gerðist eitthvað eftir hádegi.

-Einn keyrði burðartrillu aftan á hásin sína og fékk meiddi.
-Annar fékk hausverkjakast og hélt hann væri lasinn.
-Náunginn á símanum sem á að vera svo kurteis og hress í viðmóti hafði áhyggjur af lasna barninu sínu sem var í rannsókn vegna hugsanlegrar heilahimnubólgu.
-Enn annar mætti haltrandi af margra daga magasting með andlitið grett í stíl, þungur á brún.
-Einhverjir fengu á baukinn fyrir leti og fóru í hljóða fýlu sem þó fór ekki framhjá neinum
-Nokkrir voru reiðir vegna ósanngirni þar sem þeir töldu sig gjalda fyrir leti annarra..

Vinnuálagið var óvenjumikið og mannskapurinn ekki í ástandi til að sinna því.
Já og síðast en ekki síst; stór hilla féll á skrifborð og slasaði næstum því tvo starfsmenn.

Þegar ég horfði yfir hópinn gat ég ekki annað en hugsað "miserable bunch". Greyin.

Er ég sá að þau voru komin á sama ömurleikaplan og ég, ef ekki neðar, fannst mér enginn ástæða til að vera súr lengur. Ég meira segja djókaði upphátt.

Gat það verið að mér leið betur með sjálfa mig þegar þau þjáðust? oj, hvurs lags manneskja er ég eiginlega? oj mér.

föstudagur, janúar 13, 2006

Ég er að reyna að pumpa mig upp í brjálaða bloggarastemningu.

Það gengur frekar erfiðlega að rífa sig upp úr margra vikna skrifskrópi því að sjálfsögðu þarf nýjasta sagan að vera margfaldur snilldarmeistari þar sem hún naut svo langs aðdraganda.

Efnistök hafa einnig vafist töluvert fyrir mér en allar hugmyndir fram að þessu hafa tengst reiðilestrum og almennu röfli sem er svolítið skrítið þar sem ég á alveg mín bjartsýnis augnablik þar sem ég baða mig upp úr ást á lífinu. Ég nenni bara ekki að skrifa um það hér.
Ég er sennilega heldur ekki nógu gefandi til þess að geta dreift dýrmætri hlýjunni til ókunnugra jafnt sem kunnugra á vefvafstri sínu. Ég get samt reynt.


Best að ofkeyra sig ekki. Þetta eru næg skrif í beli.